Ferill 899. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 2000  —  899. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um hagsmunatengsl almannatengla.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að almannatenglum verði gert skylt að skrá hagsmuni sína, þar á meðal vinnuveitanda og verkkaupa, með það fyrir augum að tryggja gagnsæi þegar slíkir aðilar taka þátt í umræðum um þjóðmál á opinberum vettvangi? Telur ráðherra þörf á að lögfesta slíka skyldu?

    Í forsætisráðuneytinu er nú unnið að því að uppfylla tilmæli GRECO, samtaka ríkja innan Evrópuráðsins gegn spillingu, sem fram komu í fimmtu úttekt samtakanna á Íslandi sem fjallaði m.a. um varnir gegn spillingu hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds. Meðal tilmælanna var að settar yrðu reglur um samskipti æðstu handhafa framkvæmdarvalds við hagsmunaverði (e. lobbyists) og aðra sem leitast við að hafa áhrif á störf stjórnvalda.
    Í skýrslu starfshóps forsætisráðherra um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu frá september 2018 var fjallað um sama efni og mælt með því að þeim sem hafa atvinnu af því að tala máli hagsmunaaðila gagnvart stjórnmála- og embættismönnum verði gert að skrá sig sem hagsmunaverði. Þá verði hafin vinna að reglum um samskipti við hagsmunaaðila sem tryggi fullt gagnsæi um samskiptin.
    Sem fyrr segir er unnið að undirbúningi lagasetningar um efnið í ráðuneytinu. Ekki hefur komið til skoðunar að hagsmunaverðir skrái hagsmuni sína í sama skilningi og nú gildir um hagsmunaskráningu ráðherra og alþingismanna en æskilegt kann að vera að skrá um hagsmunaverði (e. lobby register, lobbyist registry) innihaldi upplýsingar um verkkaupa og vinnuveitendur. Höfð verður hliðsjón af erlendum fyrirmyndum og leitað samráðs við helstu hagsmunaaðila og almenning.